Meðmæli

Til þess sem málið varðar.

Lemme Linda Saukas

Mér er mikil ánægja að fá að setja á blað nokkur orð um Lemme Lindu Saukas, fyrrverandi nemanda minn í Háskóla Íslands.

Vorið 2008 kenndi ég námskeiðið Samtalsgreining við hugvísindadeild Háskóla Íslands og þar bar fundum okkar Lemme fyrst saman. Námskeiðið fjallaði um mjög sérhæft svið málvísinda eins og heitið gefur til kynna og nemendur voru ekki margir. Því myndaðist mjög góður andi í námskeiðinu en líka mikill metnaður við að gera vel. Í þessum hóp var Lemme.

Í stuttu máli má segja að Lemme hafi verið miðjan í hópnum. Allar áhyggjur af því að uppruni hennar stæði í vegi fyrir því að hún gæti sett sig vel inn í aðstæður í íslenskum samtölum hurfu eins og dögg fyrir sólu strax við fyrstu verkefnaskil, en ekki bara það, heldur gat hún miðlað okkur hinum af reynslu sinni af samtalshegðun í ólíkum tungumálum sem ekkert okkar hinna kunni nein skil á.

Það kom reyndar í ljós að Lemme var afburðanemandi og verkefnin hennar báru af. Ýmislegt stuðlar að því að mínu mati, t.d. fjölbreytt nám sem hún hefur að baki, góð almenn þekking á tungumálum, góð máltilfinning og framúrskarandi þekking á íslensku máli. Þegar ofan á þetta bætist nákvæmni fræðimannsins og metnaður til að standa sig þá er útkoman vinna í hæsta gæðaflokki. Þannig voru öll skilaverkefni Lemme á þessu námskeiði.

Ég hef verið svo heppin að hafa átt nokkur samskipti við Lemme síðan leiðir skildi vorið 2008. Þau hafa enn styrkt þá mynd sem ég hafði gert mér af henni og hennar persónuleika. Hún á auðvelt með að umgangast fólk, hefur ljúfa og fallega framkomu en er líka fylgin sér og ákveðin ef því er að skipta.

Ég mæli því eindregið með Lemme til verka á mínu sviði, þ.e. í tengslum við tungumál. Þar liggur hennar styrkur. Vinsamlega hafið samband ef fyllri upplýsinga er óskað.

Þórunn Blöndal

Dósent í málfræði

Háskóli Íslands – Menntavísindasvið

Sími: 525 5589/862-0625

Netfang/E-mail: thorunnb@hi.is